Skip to Content

Vortónleikar 2012

Vortónleikar karlakórsins Fóstbræðra Hinir árlegu vortónleikar Fóstbræðra fara fram í Langholtskirkju 1., 2., 3. og 5. maí nk. Tónleikarnir hefjast kl. 20 nema á laugardaginn 5. maí en þá hefjast þeir kl. 16:00. Hægt er að nálgast miða hjá kórfélögum eða við innganginn.  

 

Að þessu sinni er Gissur Páll Gissurarson, tenór, einsöngvari með kórnum. Gissur Páll  hóf söngnám sitt við Söngskólann í Reykjavík árið 1997. Þar var söngkennari hans, Magnús heitinn Jónsson, óperusöngvari. Gissur stundaði nám við Conservatorio G.B Martini í Bologna frá árinu 2004 og árið 2005 sótti Gissur Páll einkatíma hjá Kristjáni Jóhannssyni, óperusöngvara. Gissur á langan starfsferil að baki þótt ungur sé því fyrsta hlutverk sitt fékk hann aðeins ellefu ára í Oliver Tvist.Árið 2003 þreytti Gissur frumraun sína á ítölsku óperusviði sem Ruiz í óperunni Il Trovatore eftir  Giuseppe Verdi. Árið 2004 tók Gissur Páll þátt í uppfærslu á Così fan tutte, eftir  W. A. Mozart, undir stjórn Claudio Abbado. Hann hefur einnig sungið  Danilo í Kátu ekkjunni eftir  Franz Lehàr. Árið 2005 hélt Gissur Páll til Japan og kom þar fram á 11 tónleikum fyrir hönd Íslands á Expo sýningunni sem haldin var í Nagoya í Japan. Áætlaður gestafjöldi á tónleika Gissurar var um 100.000 manns. Um jólin 2005 kom Gissur Páll fram á hátíðartónleikum í Verona þar sem að hann fékk glæsilega dóma. Gissur tók þátt í söngkeppni  í  Flaviano Labò þar sem 123 keppendur voru skráðir til leiks og hlaut hann þriðja sætið. Þess ber að geta að Gissur var eini karlsöngvarinn sem vann til verðlauna. Haustið 2006 hélt Gissur sína fyrstu einsöngstónleika á Íslandi í Salnum í Kópavogi við góðar undirtektir. Hann sneri aftur til Ítalíu og tók þátt í söngkeppni í Brescia og hreppti tvenn verðlaun þar.Karlakórinn Fóstbræður býður Gissur Pál hjartanlega velkominn til samstarfs og við vitum að þar er sannur listamaður á ferð.  Píanóleikari okkar er, að venju Steinunn Birna Ragnarsdóttir, tónlistarstjóri Hörpu. Steinunn hefur leikið á píanóið með okkur í mörg ár og hana þarf vart að kynna en svo menn sjái hve glæsilegir listamenn eru með okkur fylgja þeim öllum nokkur orð.Steinunn lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1981. Hún lauk meistaragráðu frá New England Conservatory of Music í Boston í Bandaríkjunum árið 1987. Hún starfaði um tíma á Spáni sem einleikari og kom þar fram með ýmsum kammerhópum. Steinunn hefur hlotið ýmiss verðlaun fyrir leik sinn og komið fram á ýmsum alþjóðlegum tónlistarhátíðum m.a. víða um Spán. Hún hefur auk þess komið fram á tónleikum í Lettlandi, Þýskalandi, Englandi, Frakklandi, Færeyjum, Bandaríkjunum og í Litháen, þar sem hún kom nýlega fram sem einleikari ásamt "St. Christopher" hljómsveitinni á tónlistarhátíðinni "Alma Mater" í Vilnius. Hún hefur einnig komið fram hjá WGBH í þætti sem sendur var út um öll Bandaríkin og kynnti þar m.a. íslenska píanótónlist. Steinunn Birna hefur starfað sem píanóleikari um árabil við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hún hefur verið virkur þátttakandi í íslensku tónlistarlífi, komið fram á Listahátíð í Reykjavík, hjá Kammermúsikklúbbnum og leikið einleik ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands. Steinunn Birna hefur verið undirleikari Fóstbræðra í mörg ár og er glæsilegur listamaður á allan hátt. Steinunn Birna er nú tónlistarstjóri Hörpu, hins nýja og fallega tónleikahúss okkar.

Söngstjóri er Árni Harðarson. Hann hefur nú fyllt tvo áratugi með kórnum og segir það sig sjálft að kórmenn eru sáttir með söngstjóra sinn enda er hann frábær listamaður.

 Árni lauk burtfararprófi í píanóleik frá Tónlistarskóla Kópavogs árið 1976. Hann stundaði framhaldsnám í píanóleik og tónsmíðum við The Royal College of Music London á árunum 1978–1983. Eftir að hann sneri heim hefurÁrni verið virkur í íslensku tónlistarlífi sem kórstjóri, tónskáld og tónlistarkennari. Hann var stjórnandi Háskólakórsins árin 1983–1989 ogvar ráðinn söngstjóri Fóstbræðra haustið 1991. Auk þess að sinna tónsmíðum hefur Árni unnið að félagsmálum tónskálda og var m.a. formaður Tónskáldafélags Íslands 1995–1998. Hann var fulltrúi Íslands í NOMUS, Norrænu tónlistarnefndinni, frá 1993 - 2000. Árni er skólastjóriTónlistarskóla Kópavogs og hefur verið söngstjóri Fóstbræðra í rúmlega tvo áratugi. Hann hefur einnig samið mörg lög og nokkur lög fyrir kórinn og sömuleiðis útsett fjölda laga.  Tónleikar kórsins hefjast á Ár vas alda en það hefur verið upphafslag kórsins í mörg ár og er fastur liður á dagskrá okkar. Þann 12. febrúar lést Jón Þórarinsson sem var söngstjóri Fóstbræðra frá 1950 – 1954 er hann lét af störfum og tók þá við stjórn Gamalla eins og félagsskapur eldri félaga er kallaður. Samstarf þeirra stóð allt til ársins 1999.Fóstbræður vilja minnast síns frábæra söngstjóra og góðs vinar með því að syngja Fóstbræðrasyrpu sem hann útsetti. Fóstbræður verða á ferð á Austurlandi 19. og 20. apríl og munu þeir halda tvenna tónleika og syngja auk þess á nokkrum öðrum stöðum. Því er við hæfi að láta lög Inga T. hljóma um salinn en við munum, að sjálfsögðu, flytja nokkur lög eftir þetta ástsæla tónskáld þar eystra. Þá er komið að Gissuri Páli sem syngur hið þekkta lag, Í dag er ég ríkur, reiður, snauður o.s.frv. Árni Harðarson, söngstjóri, hefur sett næstu þrjú lög í kórbúning, tvö lög sem tengjast Sauðárkróki þar sem Eyþór Stefánsson samdi hið gullfallega lag, Lindin.  Samtímamaður Eyþórs og vinur  sr. Helgi Konráðsson, fyrsti skólastjóri gagnfræðaskólans á Sauðárkróki, samdi textann við Mánaskin. Gissur Páll syngur svo Hamraborgina, með kórnum,  áður en stutt hlé er tekið. Eftir hlé er erlend tónlist á dagskránni, mjög falleg verk. Byrjað á nýlegu verki sem heitir Lux aurumque og er eftir margverðlaunaðan tónsnilling, Eric Whitacre. Hann er rúmlega fertugur en er þegar orðinn velþekktur um allan heim. Þá kemur Saltarelle eftir Saint-Saëns og er bráðfjörugur Sígaunadans á karnivali þar sem allt er í gangi og farið er frjálslega með lög og trúsetningar sem víkja fyrir fjörinu. Gissur Páll syngur fræga aríu úr Rigoletto auk þess sem kórinn tekur undir þegar líður á. Tónleikarnir  enda á þremur bandarískum verkum, þjóðlaginu Shenadoah og tveimur lögum úr söngleikjum, Summertime eftir George Gershwin og New York, New York eftir John Kander.                                

Hér er efnisskrá tónleikanna

Share this