Skip to Content

Saga Fóstbræðra

Ágrip af sögu Fóstbræðra

Saga karlakórsins Fóstbræðra er samofin íslenskri tónlistarsögu. Rætur kórsins liggja í starfi KFUM og hins ötula foringja þess, séra Friðriks Friðrikssonar, enda var kórinn upphaflega kenndur við KFUM.

Jón Halldórsson
Jón Halldórsson fyrsti söngstjóri Fóstbræðra.

Þó að kórfélagið sé formlega stofnað í nóvember árið 1916 þegar Jón Halldórsson var ráðinn söngstjóri, þá hafði reglulegt kórstarf staðið allt frá árinu 1911. Starfsemi kórsins gjörbreyttist við ráðningu Jóns, og var nú stefnt að sjálfstæðu söngstarfi með reglulegum opinberum tónleikum fyrir bæjarbúa. Fyrstu tónleikarnir af þessu tagi voru haldnir í Bárubúð 25. mars 1917 og fyrsta lagið á efnisskránni var Skarphéðinn í brennunni eftir Helga Helgason við texta eftir Hannes Hafstein. Upphaf ljóðsins er "Buldi við brestur og brotnaði þekja", og sannarlega buldi við brestur í íslensku tónlistarlífi þegar karlakórahefðin festi rætur sínar í íslenskri menningu og vann sér um leið fastan sess í þjóðarsálinni. Árlegir tónleikar Karlakórs KFUM og síðar Fóstbræðra urðu þar með að litríkum þætti í tónlistarlífi borgarinnar. Kórinn skipaði sér fljótlega í fremstu röð söngfélaga í landinu og var því ekki síst að þakka markvissri og listrænni stjórn hins ötula söngstjóra, Jóns Halldórssonar, sem stjórnaði kórnum allt til ársins 1950 eða alls í 34 ár. Kórinn fór í sína fyrstu utanlandsferð árið 1926 til Noregs, með viðkomu í Færeyjum á heimleiðinni. Kórinn söng víða í Noregi við frábærar undirtektir. Þá tók kórinn þátt í móti blandaðra kóra í Kaupmannahöfn 1929, þar sem hann lagði til allar karlaraddirnar, undir stjórn Sigfúsar Einarssonar, tónskálds. Árið 1931 var kórinn svo aftur á ferð í Danmörku á norrænni sönghátið sem haldin var í tilefni 25 ára afmælis danska karlakórsins Bel Canto. Kórinn tók einnig þátt í hátiðarsöngnum á Alþingishátíðinni 1930 og söng sama ár inn á sína fyrstu hljómplötu og mun það vera fyrsta tónlistarupptaka hér á landi.

Fóstbræður tóku þátt í eftirminnilegri söngför Sambands íslenskra karlakóra til Norðurlanda 1946 þar sem flestir söngmanna voru úr röðum Fóstbræðra en nokkrir frá karlakórnum Geysi á Akureyri. Þar var söngstjóri ásamt Jóni Halldórssyni, Ingimundur Árnason, stjórnandi Geysis. Þar var og með í för ungur og efnilegur píanóleikari, sem átti eftir að gera garðinn frægan, Rögnvaldur Sigurjónsson að nafni.

Kórinn starfaði á sínum fyrstu árum í nánum tengslum við KFUM en á því varð þó breyting eftir því sem árin liðu m.a. vegna þess að öðrum en félögum í KFUM var leyft að taka þátt í söngstarfi kórsins. Þannig fjarlægðist kórinn KFUM smám saman og á árinu 1936 var nafni kórsins breytt í Fóstbræður þegar endanlega var slitið á tengsl kórsins við KFUM.

Share this