Skip to Content

Hrútafélagið

Félag Fóstbræðra sem hafa og fara makalausir í söngferðir á erlenda grundu.
Hrútafélagið varð til yfir miðjum Grænlandsjökli er kórinn var á leið til Vesturheims. Þá kom í ljós að nokkrir kórbræður voru konulausir og jafnvel alveg ógiftir og þótti stefna í óefni með þá eftirlitslausa og hálfósjálfbjarga á erlendri grundu. Því var það að Sýslumaður kórsins Þorleifur Pálsson fv. sýslumaður í Kópavogi og Þorgeir J. Andrésson sem varð varaforseti Hrútafélagsins síðar skrifuðu lög félagsins í 36.000 feta hæð. Vegna loftþynningar og stífrar tedrykkju týndust lögin og jafnvel er talið að þeim hafi verið fyrirkomið þar sem Hrútafélagið starfar ekki opinberlega. Forsetinn er t.d. með ónýtan síma, gamalt faxtæki sem ekki er í sambandi og póstkassinn er lokaður með hengilás. Hrútafélagið notar ekki kennitölur né nafnnúmer, gefur ekki út launaseðla en tekur við peningum og gjöfum (mútum) hvar og hvenær sem er. Hrútafélagið er ekki bókhaldsskylt og starfar neðanjarðar í skjóli leynilögreglumanns kórsins og annarra sem ekki verða frekar nafngreindir. Hrútafélgið er gegnspillt og rotið og Forsetinn er alvaldur, orð hans eru lög sem hann getur breytt þegar honum dettur í hug. Hrútafélagið heldur skemmtanir a.m.k einu sinni á ári og nefnast þær Hrútakvöld þar sem snyrtilegur klæðnaður er áskilin. Gjaldmiðill Hrútafélagsins er og verður íslenska krónan. Share this