Skip to Content

Högni Egilsson Minør/Pionér

Högni Egilsson

MINØR/PIONÉR
Högni Egilsson hefur, í tilefni tónleikanna á Listahátíð, samið nýja tónlist ásamt píanóleikaranum Davíð Þór Jónssyni og munu þeir flytja hana í Norðurljósasal Hörpu, ásamt karlakórnum Fóstbræðrum undir stjórn Árna Harðarsonar. Textar eru eftir Atla Bollason. Titill tónleikanna Minør/Pionér  vísar í nöfn einu eimreiðanna sem ekið hafa á Íslandi og báru grjót og möl eftir járnbrautarteinum af Skólavörðuholti og úr Öskjuhlíð niður að sjó þegar Reykjavíkurhöfn var byggð á árunum 1913 -1917.


Um listamennina:

Söngvarinn, tónskáldið, gítarleikarinn og útsetjarinn Högni Egilsson hefur á skömmum tíma skipað sér á bekk með okkar framsæknustu og vinsælustu tónlistarmönnum og hefur náð að byggja brýr á milli popp- og klassískrar tónlistar með hljómsveitinni Hjaltalín og samvinnuverkefnum hennar við ólíka tónlistarmenn, meðal annars við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Högni útskrifaðist úr tónsmíðanámi frá Listaháskóla Íslands í fyrra og samdi nýverið tónlistina við sýningu Borgarleikhússins á Ofviðrinu í leikstjórn litháíska leikstjórans Oscaras Korsunovas.

 

Davíð Þór Jónsson hefur frá blautu barnsbeini hneigst til tóna og hljóða. Hann er píanóleikari í tríóinu Flís sem hefur verið starfandi frá árinu 1998 og leikið hefur eigið efni að mestu og gefið út allnokkrar plötur. Hann hefur komið fram á fjölmörgum tónlistarhátíðum víða um heim og leikið með fjölmörgum tónlistarmönnum í öllum geirum tónlistarinnar. Spuni og uppfinningar eru ætíð í fyrrirrúmi í hans tónlist. Davíð Þór vinnur mikið með Ragnari Kjartanssyni myndlistarmanni og gerði meðal annars með honum myndbandsverkið The End sem sýnt var á Feneyjatvíæringnum árið 2010.

Gagnrýni:

Fréttablaðið 01.06.2011  Jónas Sen

Tónlist ★★★★
MINØR/PIONÉR
Flutt í Hörpu
Tónlist eftir: Högna Egilsson,
Davíð Þór Jónsson og President
Bongó. Textar eftir: Atla Bollason.
Fram komu: Karlakórinn Fóstbræður
kom fram undir stjórn
Árna Hraðarsonar. Lýsing: Páll S.
Ragnarsson.
Tónskáldið Alexander Skrjabín skynjaði tónlist í litum. Hann dreymdi um tónleika þar sem áheyrendur myndu ekki aðeins heyra tónlist, heldur sjá hana líka sem hafsjó af litum. Tæknin í þá daga var auðvitað takmörkuð
(Skrjabín lést árið 1915), en þetta er hægðarleikur í dag. Í einum af sölum Hörpu, Norðurljósum,
eru veggirnir t.d. hálfgegnsæir, og þeir geta skipt litum. Gaman væri að hafa tónleika þar með tónlist eftir Skrjabín.
Á laugardagskvöldið voru í Norðurljósum tónleikar með verkum eftir Högna Egilsson (úrHjaltalín), píanóleikarann Davíð
Þór Jónsson og hljóðstjórann President Bongó. Ljósatæknin var nýtt til fulls á tónleikunum. Veggirnir breyttu um lit eftir
stemningu tónlistarinnar hverju sinni. Það var mögnuð upplifun. Litadýrðin gaf tónlistinni alvegnýja vídd.
Auðvitað skipti það máli hvernig tónlistin hljómaði. Og hún var yfirleitt stórskemmtileg, auk þess sem hljómburðurinn var flottur. Framvindan í hverju lagi var í sjálfu sér ekki mikil, en andrúmsloftið var grípandi. Einfaldar,mjög djúpar bassahendinga rvoru áberandi, bæði leiknar á píanó og úr tölvu. Yfir öllusvifu alls konar safaríkir píanóhljómar.
Högni söng – hann er með fallega rödd. Það var rík tilfinning í öllu sem hann gerði, einlægni og fegurð.
Karlakórinn Fóstbræður kom líka fram undir stjórn Árna Harðarsonar. Hugsanlega hefði hlutverk hans mátt vera veigameira. Hann var allur á rólegu nótunum, söng veikt og þægilega, sjaldnast meira en það. Hér hefði breiddin í tónlistinni mátt vera meiri. Fjölbreytnin var ríkulegri í hinu sjónræna. Á sviðinu var ekki bara flygill, heldur einnig
gamall píanógarmur. Í kringum hann var hrúga af járnarusli; bárujárn og ryðguð púströr. Á tímapunkti rótaði Davíð í hrúgunni, og hávaðinn bergmálaði í hljóðkerfi salarins og varð hluti af tónlistinni. Undir lok tónleikanna réðst Högni svo á píanóið með sleggju og barði hljómborðið í klessu. Oft hefur mann langað til að gera það, he he!
Niðurlæging píanósins var fullkomnuð í lok tónleikanna, en þá var píanóið híft upp í loft og skilið þar eftir dinglandi. Gaman hefði verið að sjá það detta aftur á sviðið, með tilheyrandi braki og brestum. En sjálfsagt hefur ekki
fengist leyfi fyrir því! Einstaka atriði var heldur langdregið, eins og t.d. þegar bókstafurinn A var búinn til úr járnaruslinu
(sem væntanlega vísaði til afmælis Amnesty International þann dag). Það tók óþarflega langan tíma, sem gerði tónlistina heldur endurtekningarsama. En í það heila voru tónleikarnir frumlegir og spennandi, og maður gekk glaður út að þeim loknum.

Niðurstaða: Athyglisverðir tónleikar með fallegri tónlist. Lýsingin var frábær.

                                                                                                                                                  

Morgunblaðið 01.06.2011 Kristín Heiða Kristinsdóttir

Ég fór með miklar væntingar á tónleika á Listahátíðum liðna helgi þar sem tónlistarmennirnir Högni Egilsson
kenndur við Hjaltalín og píanóleikarinn Davíð Þór Jónsson frumfluttu eigið verk með þátttöku karlakórsins Fóstbræðra. Verkið heitir Minør/Pionér og vísar í nöfn þeirra tveggja eimreiða sem ekið var á Íslandi á árunum 1913-1917. Þegar gengið var í salinnblasti við sviðsmynd myndlistarmannsins Hrafnkels Sigurðssonar þar sem tilkomumiklum haug af ryðguðu brotajárni hafði verið komið fyrir. Allt fór þetta vel af stað og lofaði góðu og greinilega mikið lagt upp úr heildarmyndinni, leikið var með ljós og liti í veggtjöldunum og reykur liðaðist um sviðið. Það var flott að sjá karlakórsmeðlimina tínast inn á svalirnar fyrir ofan sviðið í vinnugöllum, dökkbláum samfestingum, sumir í rauðum, m.a. kórstjórinn, Árni Harðarson.  Og upphafslagið, Andaðu rótt, 
kallaði svei mér þá fram gæsahúð. Síðan vatt verkinu fram með ýmsum uppákomum og í raun var þetta einn allsherjar listgjörningur, hljóð- og sjónrænn, heilmikil upplifun. Margt var afskaplega vel gert en annað fannst mér minna varið í. Textinn hans Atla Bollasonar skilaði sér ekki nógu vel, nema ein og ein setning, ég man t.d eftir að hafa heyrt: „Við étum kol.“ Ég velti fyrir mér um miðbik tónleikanna hvað þeir félagar væru að reyna að segja  okkur með þessu öllu saman. Þegar Högni söng „Komdu og spurðu ekki neins“, þá flaug það vissulega í gegnum huga minn að maður á kannski ekki að spyrja, bara upplifa. Mér fannst til dæmis flott þegar Davíð Þór rauk í hauginn og fór að henda til ruslinu og kom þar í ljós hrörlegt píanó sem færði okkur hola málmtóna þegar hann spilaði á það og rak í það teina. En þegar Högni svo seinna kom með sleggju og barði á nótnaborðið, þá fannst mér það frekar hallærislegt. Stundum var þetta á mörkunum að vera tilgerðarlegt, ég fékk nettan aulahroll á köflum. Tónlistin var stundum hreint dásamleg en líka staglsöm og ég stóð mig að því að geispa þegar endurtekningarnar voru hvað mestar. Og mér fannst karlakórinn vannýttur. Vissulega var þetta heilmikið sjónarspil en ég velti fyrir mér hvort einfaldleikinn færi okkur kannski stundum miklu meira en flúrið og lætin. Einn tónleikagesta notaði þá ágætu samlíkingu að viðburðurinn hefði verið eins og þunglyndisleg finnsk bíómynd sem enginn veit um hvað er.

                                                                        

Share this