Skip to Content

Gamlir Fóstbræður

 

Gamlir Fóstbræður er kór eldri félaga, nokkurs konar lávarða- eða öldungadeild Fóstbræðra. Félagið var stofnað árið 1959 að frumkvæði Hreins Pálssonar sem þá hafði um nokkurt skeið haldið hugmynd að stofnun þess á lofti. Frá stofnun hafa Gamlir Fóstbræður verið sjálfstætt starfandi kór nátengdur Karlakórnum Fóstbræðrum. 

Kórinn er bæði vettvangur þeirra sem eru hættir að syngja með starfandi kórnum, svo og hinna sem kjósa af ýmsum ástæðum að taka sér frí í skemmri eða lengri tíma frá starfi með starfandi kórnum en vilja vera í tengslum við Fóstbræður án of mikilla skuldbindinga en einnig eru í kórnum nokkrir núverandi söngmenn í Fóstbræðrum. Allir kórfélagar hafa áratugalanga reynslu af kórsöng. 

Gamlir hafa allt frá stofnun staðið þétt að baki og við hlið starfandi kórsins og komið fram á öllum stærri hátíðarstundum Fóstbræðra með starfandi kórnum. 

Gamlir Fóstbræður er vel sönghæfur kór, sem hefur komið fram og sungið við hin margvíslegu tækifæri. Á undanförnum árum hefur kórinn sungið á hverju ári á öldrunar- og hjúkrunarheimilum á höfumborgarsvæðinu við frábærar undirtektir og einnig á samkomum hjá ýmsum félagasamtökum.

Jón Þórarinsson tónskáld stjórnaði kórnum frá upphafi til ársins 1997 en þá tók Jónas Ingimundarson við. Frá haustinu 2009 tók Árni Harðarson við stjórninni og hefur hann stjórnað kórnum æ síðan. Árni stjórnar einnig Fóstbræðrum og styrkir það mjög samband kóranna.

Gamlir Fóstbræður æfa að jafnaði aðra hverja viku og oftar þegar nauðsyn krefur. Þeir hafa haldið tónleika víðs vegar um landið á starfsferli sínum. Síðustu 10 árin hefur kórinn sungið á Suðurnesjum, Suðurlandi, Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi allt til Grímseyjar og Kópaskers auk þess að hafa farið í söngferðir erlendis. Má þar nefna ferð til Færeyja 2014 og á kóramót á Tenerife 2016 og annað kóramót í Barcelona 2017.

Á þessu ári 2019 heldur kórinn upp á 60 ára afmæli sitt með afmælistónleikum 12. október í Digraneskirkju kl. 15:00 og síðan í nóvember næstkomandi heldur kórinn á vit nýrra ævintýra og fer í tónleikaferð til Japans þar sem hann mun koma fram bæði í Tokyo og Kyoto.

 

Share this