
FÓSTBRÆÐRAHEIMILIÐ - VEISLUSALUR
Umsjón með útleigu á Fóstbræðraheimilinu hefur Hjálmur Gunnarsson S:891-9371 (vinsamlega hringið út)
netfang: salurinn109(að)gmail.com
Glæsilegur veislusalur sem tekur um 140 manns í sæti og 170 vel í standandi boð. Fóstbræðraheimilið að Langholtsvegi 109 var vígt 22. apríl árið 1972 og lagði fyrrverandi söngstjóri kórsins, Jón Halldórsson hornstein að húsinu. Í húsnæðisnefnd höfðu þá starfað ötullega árum saman þeir Þorsteinn R. Helgason, Magnús Guðmundsson frá Hvítárbakka og Ásgeir Hallsson.
Fjöldi kórmanna lagði á sig gríðarlega vinnu við byggingu heimilisins allt frá því að lóðinni var úthlutað árið 1965 og með byggingu þess rættist áratuga gamall draumur félagsins um eigið athvarf og heimili. Kórinn hafði leigt æfingaaðstöðu á ýmsum stöðum í Reykjavík frá stofnun og komu margar sögufrægar byggingar í borginni við sögu í þeim efnum. Nægir að nefna hús KFUM við Amtmannsstíg, Miðbæjarbarnaskólann, Höfn við Ingólfsstræti, Varðarhúsið, Menntaskólann í Reykjavík, Sanitas við Lindargötu, Hljómskálann og Vonarstræti 4 þar sem kórinn átti lengi athvarf. Það var því sannkölluð hátíðastund þegar Fóstbræðraheimilið reis loks af grunni og þótt hér sé minnst á ósérhlífna kórfélaga má ekki gleyma framlagi Fóstbræðrakvenna sem létu alls ekki sitt eftir liggja í fjáröflun og sjálfboðavinnu.
Allar götur síðan hefur kórinn átt sitt heimili í húsinu. Þar er stór og góður æfingasalur með mjög vönduðum flygli. Þar er Jónsstofa sem hýsir muni og minjar úr merkri sögu kórsins, nefnd eftir Jóni Halldórssyni og þar hanga ómetanlegar teikningar snillingsins Halldórs Péturssonar af kórfélögum. Allt stuðlar þetta að því að skapa hlýlegt og virðulegt andrúmsloft sem er þrungið sögu og hefðum.
Hið upprunalega Fóstbræðraheimili hefur alla tíð verið leigt til veisluhalda og samkvæma af margvíslegu tagi enda aðstaða með afbrigðum góð. Fyrir fáum árum voru innréttingar og gólfefni endurnýjuð svo óhætt er að fullyrða að veislusalir þar standast allar kröfur nútímans.

- Login to post comments
-