Skip to Content

Félag Fóstbræðrakvenna

Félag Fóstbræðrakvenna hefur starfað með formlegum hætti frá árinu 1968. Það ár var félaginu fyrst skipuð stjórn en sá áfangi átti sér svolitla forsögu. Segja má að félagið hafi orðið til þegar afmælishátíðahöld Fóstbræðra árið 1966 voru í undirbúningi. Þá var haldinn fjölmennur fundur eiginkvenna kórmanna sem fjallaði um hvaða afmælisgjöf konur ættu að færa kórnum.

Á þessum fundi var ákveðið að gefa kórnum afar vandaðan gullsaumaðan félagsfána allstóran og var Unnur Ólafsdóttir fengin til verksins. Á næstu árum stóðu eiginkonur fyrir tískusýningum og skemmtunum á Hótel Sögu til fjáröflunar fyrir húsbyggingu Fóstbræðra sem þá stóð yfir. Verður framlag þeirra til þess verks seint fullþakkað og ljóst að eiginkonur létu ekki eftir liggja skutinn þótt rösklega væri róið í framrúminu.

Hinn fallegi félagsfáni sem Unnur Ólafsdóttir saumaði var afhentur félaginu í vígsluhófi Fóstbræðraheimilisins 1971 og er hann varðveittur þar í sérstökum skáp en ávallt stillt fram á vortónleikum kórsins og önnur hátíðleg tækifæri.

Félag Fóstbræðrakvenna hélt áfram að leggja húsbyggingunni lið og gáfu margt húsmuna og innréttinga og síðast þegar kórinn var 80 ára 1996 gaf Félag Fóstbræðrakvenna kórnum veglega peningagjöf sem rann til kaupa á nýjum söngpöllum fyrir kórinn. Þannig má segja að til þessa dags eru konur ávallt reiðubúnar að skjóta styrkum stoðum undir starfsemi kórsins.

Á síðustu árum hefur dregið úr formlegri virkni félagsins en konurnar standa þó dyggilega að baki maka sinna og aðstoða þegar þess er þörf.

  Share this