Skip to Content

Aldarminning fyrstu tónleika

Svohljóðandi auglýsingu mátti líta á forsíðu Morgunblaðsins sunnudaginn 25.mars árið 1917. Aðrar auglýsingar á forsíðu um viðburði bæjarins þetta kvöld voru; kvöldskemmtun í Goodtemlarhúsinu með einsöng, upplestri og hornablæstri, í Gamla bíó var sýnd franska bíómyndin Kýlið, í Nýja Bíó danska bíómyndin Skrifarinn, Biblíufyrirlestur var í Betel og í Iðnaðarmannahúsinu hélt Páll Eggert Ólafsson fyrirlestur um Jón lærða og samtíma hans. ........................................................................................................................................................................................... Þriðjudaginn á eftir kom fram í Morgunblaðinu að kórsöngurinn þótti hin bezta skemmtun og yrði hún endurtekin sama kvöld „þar eð margir þurftu frá að hverfa í fyrra sinnið“. Samkvæmt reikningum kórsins kemur fram að tekjur af tónleikunum voru 490 krónur og af því má ráða að hátt í 500 manns hafi hlýtt á sönginn á tvennum tónleikum sem má þykja gott í 15 þúsund manna bæ. Það samsvarar 7.000 manns í Reykjavík samtímans. ........................................................................................................................................................................................... Fyrsta lagið sem hljómaði á þessum fyrstu tónleikum var lag Helga Helgasonar við texta Hannesar Hafstein „Skarphéðinn í brennunni“ sem hefst á orðunum „Buldi við brestur og brotnaði þekjan“. Hin lögin voru: „Er svellur stríð“ eftir Grunholtzer, „Maalet“ eftir Winter-Hjelm, sænska þjóðlagið „Þú söguríka Svíabyggð“, „Heiðstirnd bláa“ eftir Wetterling, „Æðir stormur“ eftir Dürrner, „Söknuður“eftir Myhrberg, íslenska þjóðlagið „Svíalín og hrafninn“(Hrafninn flýgur um aftaninn) og að lokum „En glad trall“ eftir Körling. ........................................................................................................................................................................................... Á palli stóðu 20 ungir menn sem teljast stofnfélagar karlakórsins. Meðalaldur þeirra var 25 ár, sá yngsti 17 ára sá elsti 39 ára og söngstjórinn 27 ára. Þeir karlakórsmenn sem tóku þátt í tónleikunum voru: Jón Halldórsson söngstjóri, Ágúst Einarsson Hansen 1B, Árni Bj.Björnsson 2T, Bjarni Nikulásson 1T, Gísli Sigurðsson 1T, Guðmundur Bjarnason 2B, Guðmundur Ólafsson 1T, Hafliði Helgason 2B, Hallur Þorleifsson 2B, Haraldur Sigurðsson 1B, Helgi Sigurðsson 1B, Jón Guðmundsson 1T, Jón Hjaltalín Kristinsson 1T, Ludvig Carl Magnússon 1B, Magnús Guðbrandsson 1T,Pétur Helgason 2B, Stefán Ólafsson 1B, Steini Helgason 2B, Sveinn Þorkelsson 2T,Sæmundur Guðni Runólfsson 2B og Vigfús Guðbrandsson 1B. ........................................................................................................................................................................................... Húsið Bárubúð þar sem tónleikarnir fóru fram stóð þar sem að nú stendur Ráðhús Reykjavíkur og samkomusalurinn hefur verið þar sem nú er aðalinngangur ráðhússins. Húsið, Vonarstræti 11, var reist á uppfyllingu í Tjörninni árið 1899 af sjómannafélaginu Bárunni. Það var tvílyft timburhús, klætt bárujárni og var eitt helsta samkomuhús bæjarins á fyrri hluta aldarinnar en það var rifið árið 1945. Eftir það var lóðin nýtt sem bílastæði þar til að ráðhúsið var reist undir lok aldarinnar. ..................................................................................................................................................................... Karlakórinn Fóstbræður mun minnast þessara fyrstu tónleika á vortónleikum 2017 sem haldnir verða í Norðurljósasal Hörpu dagana 25., 26., 27. og 29.apríl. Á þeim tónleikum koma Gamlir Fóstbræður einnig fram og munu þeir m.a. flytja „Skarphéðinn í brennunni“ sem var fyrsta lagið sem kórinn söng opinberlega. Verða tónleikarnir síðasti viðburðurinn í aldarafmælishátíð kórsins.
Share this